36 < útivera á vit ævintýranna - · pdf filelitlu pjakkarnir...

10
36 < ÚTIVERA Á vit ævi Gengið í átt að Everest, Lhotse og Ama Dablam.

Upload: vunhan

Post on 02-Feb-2018

226 views

Category:

Documents


3 download

TRANSCRIPT

Page 1: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

36 < ÚTIVERA

Á vit ævintýranna

Gengið í átt að Everest, Lhotse og Ama Dablam.

Page 2: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

ÚTIVERA > 37

Texti: Kristíana Baldursdóttir

Á vit ævintýranna

Gengið til Everest Base Camp í Nepal

Page 3: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

38 < ÚTIVERA

KathmanduFyrsta deginum í Nepal eyddi allur hópurinn saman í Kathmandu, fór í skoðunarferð um borgina, skrapp í eina góða útivistarbúð og borðaði síðan kvöldmat á indversku veitingahúsi. Kath-mandu er merkileg borg. Einhverjum í hópnum varð að orði að þetta væri stærsti ruslahaugur í heimi. Ósagt skal látið hvort svo djúpt megi taka í árinni en óneitanlega var mjög mikið rusl á göt-unum, í ánni Bagmati sem rennur í gegnum borgina og ekki síst í húsa-sundum. Á hinn bóginn voru svo gífur-lega fallegar byggingar, til dæmis hofin og konungshöllin að ógleymdum bygg-ingunum á Durbar-torgi sem sumar voru reistar á 17. öld. Durbar-torgið er á heimsminjaskrá Unesco.

Í skoðunarferðinni skoðuðum við þrjú hof, Búddahofið Swayambhunath sem kallað er apahofið, Bodhnath en þar var áður fyrr markaður þar sem Tíbetar komu með vörur sínar og áttu verslun við heimamenn. Loks horfðum við á Pashu-patinath-hofið frá hinum bakka Bagmati-árinnar, en í það hof mega engir koma nema Hindúar. Á þar til gerðum upp-hækkuðum pöllum á árbakkanum við hofið fer fram líkbrennsla. Aðstandendur hins látna koma með lík hans og horfa á meðan það er brennt. Þegar ekkert er eftir annað en askan er henni sópað af pallinum og út í ána. Það var einkennileg tilfinning að standa þarna hinum megin árinnar og fylgjast með.

Við heimsóttum skóla þar sem kennt er að mála Thanka-myndir, sem eru trúarlegs eðlis. Námið við skólann tekur sex ár. Hægt var að kaupa myndir sem voru ýmist málaðar af nemendum í fyrri hluta námsins, þeim sem höfðu lokið náminu eða þeim sem höfðu unnið við að mála myndir í tuttugu ár. Verðið hækkaði með aukinni reynslu málarans.

Umferðarmenning í Kathmandu er engu lík. Á götunum ægir öllu saman; bílum, þríhjólafarartækjum, mótorhjólum, reiðhjólum og gangandi fólki. Svo virðist sem besta aðferðin til að komast leiðar sinnar sé að troðast áfram. Það eru engin umferðarljós í borginni, en stundum stóð lögga uppi á palli á miðjum gatnamótum og reyndi að stjórna umferðinni. Götuljós eru engin, enda er rafmagn af skornum skammti. Þess má geta að vinstri handar umferð er í Nepal.

Í Kathmandu býr um það bil ein milljón manna en þjóðin í heild telur tæpar 30 milljónir. Aðalatvinnuvegurinn er landbúnaður og þar næst kemur þjónusta, sem innifelur sívaxandi ferða-mannaiðnað. En það er aðeins rúmlega helmingur vinnufærs fólks sem er svo heppinn að hafa vinnu, í landinu er um 45% atvinnuleysi. Afleiðing þess er sú að margir búa við afskaplega léleg kjör og litla hjálp er að fá frá opinberum að-

ilum. Sjúkratryggingakerfi er ekki til staðar, svo þeir sem ekki hafa efni á að greiða fyrir læknishjálp geta bara dáið drottni sínum. Sem dæmi má nefna að á hverju ári deyja meira en eitt þúsund konur af barnsförum í landinu.

Upp til fjallaSnemma morguns 3. apríl flugum við, sem ætluðum að ganga upp í Everest Base Camp, til Lukla sem er lítið þorp í 2.800 m hæð. Þangað er eingöngu hægt að komast fljúgandi eða gangandi, en frá næsta byggða bóli er sjö daga ganga þangað. Flugvöllurinn í Lukla er ævintýralegur, flugbrautin er stutt, hall-andi upp í móti þegar lent er og þá er stefnt beint í átt að fjallshlíðinni. Það var mikil upplifun að lenda þarna og ekki síður að taka á loft þegar við fórum til baka. Flugið til Lukla tók hálftíma.

Í Lukla hittum við burðarmennina okkar fimm en leiðsögumanninn höfðum við hitt í Kathmandu og flaug hann með

Það var glaðbeittur 25 manna hópur sem mætti út í Leifsstöð eldsnemma morg-uns 31. mars sl. Eftirvænting lá í loftinu enda var förinni heitið á vit ævintýra í Nepal. Hópurinn var á vegum ÍT ferða sem höfðu skipulagt tvenns konar göngu í Nepal með aðstoð nepalskrar ferðaskrifstofu. Í Kathmandu skyldi hópurinn skiptast í tvennt; fimmtán manns undir fararstjórn Hjördísar Hilmarsdóttur, göngu-ferðagúrús ÍT-ferða, hugðust ganga upp í Annapurna Base Camp en átta manna hópur setti stefnuna á Everest Base Camp og fyrir þeim hópi fór undir-rituð.

Í Lukla-dalnum.

Page 4: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

ÚTIVERA > 39

okkur til Lukla. Leiðsögumaðurinn hét Rishi Kumar Guragain og var af þjóð-flokki Brahmin. Tveir burðarmannanna voru af þjóðflokki Rai, bræðurnir Ram og Thumba Man. Loks voru þrír burðar-mannanna Sherpar, Pasang og tveir sem hétu Sonam. Þeir voru stundum kallaðir litlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. Annar Sonam-inn var 15 ára og hafði verið burðarmaður í tvö ár.

Í fylgdarliði okkar voru þannig þrír þjóðflokkar, en í Nepal eru hátt í eitt hundrað þjóðflokkar sem tala hver sitt tungumál eða mállýsku. Mállýskurnar eru svo ólíkar að menn af mismunandi þjóðflokkum skilja ekki hver annan. Hins vegar læra allir ríkismálið Nepali og nota það í samskiptum sín á milli. Nýlega var á BBC frétt um tungumál nepalska þjóð-flokksins Kusunda, en það er alveg að deyja út þar sem einungis er eftirlifandi ein 75 ára gömul kona sem getur talað málið. Aðrir meðlimir þjóðflokksins, um eitt hundrað talsins, eru hættir að nota tungumálið og skilja það meira að segja ekki lengur.

Við öxluðum okkar skinn og lögðum tafarlaust af stað í gönguna frá Lukla og inn eftir Lukla-dalnum. Það var eins og við manninn mælt að þegar Íslending-arnir gengu af stað byrjaði að rigna. Svo það var ekki um annað að ræða en skella sér í regngallann. Ganga dagsins var bara 3ja tíma löng en á þeim tíma fengum við hressilegar dembur og leit-uðum skjóls í tehúsi meðan verstu demburnar gengu yfir. Skálana sem við gistum í kalla Nepalir Teahouses, en þeir eru nokkuð svipaðir íslenskum fjalla-skálum að öðru leyti en því að þeir eru kaldari. Alltaf var þó kveikt upp í ofni í matsölunum svo þar var funhiti. Fyrstu nóttina gistum við í þorpinu Phakding.

Namche BazaarÁ öðrum göngudegi brosti sólin við okkur og áfram héldum við inn Lukla-dalinn og áfangastaður kvöldsins var þorpið Namche Bazaar sem er í 3.400 m hæð. Namche Bazaar er um það bil 1.500 manna þorp og helsta verslunar-miðstöð Solu Khumbu héraðsins. Þorpið er einstaklega skemmtilega staðsett eins og sjá má á meðfylgjandi myndum. Verslanir af ýmsu tagi eru í þorpinu og margar þeirra selja eftirlíkingar af úti-vistarfatnaði frá þekktum vörumerkjum. Einn Íslendinganna stóð með slíka flík í höndunum inni í búð og spurði hvort flíkin væri ekta, enda var hann ekki bú-inn að læra á nepalskt verðlag á fatnaði. Ekki stóð á svarinu hjá hinni ágætu búðarkonu: „It is almost real“!

Í Namche Bazaar vorum við um kyrrt

einn dag til að aðlagast hæðinni, enda komin upp í 3.400 m hæð. Yfirleitt byrjar fólk að verða vart við óþægindi vegna þynnra lofts í kringum 3.000 m hæð og þá er mikilvægt að gefa sér tíma til að venjast þunna loftinu til að koma í veg fyrir hæðarveikina sem getur sett stórt strik í reikninginn. Þennan dag skoð-uðum við safn um Sherpa sem er stað-sett á hæð rétt ofan við þorpið, mjög skemmtilegt safn. Af þeirri hæð sáum við í fyrsta skipti hið mikla fjall Everest, sem á nepölsku heitir Sagarmatha (Top of the Sea), á tíbetsku Chomolungma

(Mother Goddess of the Universe). Mann setti hljóðan, það var mögnuð tilfinning að standa og horfa á hæsta fjall í heimi. Fjallið sem svo margir hafa lagt líf sitt í hættu til að sigra, fjallið sem hefur tekið svo mörg mannslíf. Fleiri glæsileg fjöll sáust frá þessum stað, þar á meðal Lhotse sem er fjórða hæsta fjall í heimi (8.516 m), Nuptse (7.841 m) og Ama Da-blam (6.814 m). Myndavélarnar voru óspart notaðar en þess á milli bara staðið og horft, nánast í leiðslu.

Í Namche Bazaar borðuðu sumir í

Hengibrú og brekkan upp að Namche Bazaar.

Namche Bazaar.

Page 5: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

40 < ÚTIVERA

hópnum jakuxasteik, en hún vakti litla hrifningu og ekki er vitað um neinn sem borðaði hana tvisvar. Á þessum slóðum er ræktað mikið af kartöflum enda voru þær alltaf á boðstólum, mismunandi fram bornar. Kartöflumús var á mat-seðlum sem aðalréttur og jafnvel soðnar kartöflur með smjöri. Þær voru bornar fram óskrældar og voru eiginlega ekkert girnilegar.

Nepalir borða mikið af hrísgrjónum og í þjóðarrétti þeirra, daal bhaat, eru hrísgrjón uppistaðan. Rétturinn daal bhaat er borinn þannig fram að á matar-disk er settur stór haugur af hrísgrjónum og dálítið af steiktu grænmeti. Með því er borin fram linsubaunasúpa á súpu-diski. Pjattaðir Íslendingar settu hrís-grjónin út í súpuna eða helltu súpu yfir hrísgrjónin og borðuðu síðan allt saman með skeið, en rétta nepalska aðferðin er að hella súpunni yfir hrísgrjónin,

hræra það saman og moka síðan upp í sig með fingrum hægri handar. Leið-sögumaðurinn Rishi hélt sýnikennslu á nepölsku aðferðinni eitt kvöldið og var ótrúlega fljótur að ljúka af diskinum. Nepalir borða yfirleitt daal bhaat tvisvar á dag. Aðspurður hvað Nepalir borðuðu á hátíðum svaraði Rishi: „Nú, daal bhaat“. Þá er meira lagt í matseldina og eitthvert kjötmeti borið með auk græn-metisins, til dæmis steiktur kjúklingur eða villisvín.

Til DengbocheNæsta morgun var jörð alhvít þegar göngufólk skreið úr pokunum sínum til að halda ferðinni áfram. Ekki truflaði þó snjórinn Íslendingana sem eru öllu vanir í þeim efnum. Fljótlega tók snjóinn upp í sólskininu og við þokuðumst inn dalinn í átt að Dengboche. Stígurinn lá töluvert hátt í fjallshlíðinni og nokkuð bratt var

niður að ánni Dudh Kosh. Stígarnir eru ágætlega breiðir, hvergi þröngar kinda-götur eins og við erum vön í fjallshlíðum hér heima, enda var það eins gott þar sem töluverð umferð jakuxa er á stíg-unum. Þeir eru notaðir til að flytja vörur upp í fjöllin, jafnvel alveg upp í Base Camp. Leiðsögumaðurinn ráðlagði okkur að vera ævinlega hlíðarmegin þegar við mættum jakuxum, þeir ganga bara sína leið og spá ekkert í hvað verður fyrir þeim og gætu auðveldlega rutt vesælli mannveru út af stígnum. Hópurinn gætti sín vel og engin slys urðu, en óneitanlega var ekkert þægi-legt að ganga aftastur í hópnum með vel hyrndan jakuxa á eftir sér.

Eins og Íslendinga er siður vildum við vita um veðurspár fyrir næstu daga og spurðum því okkar frábæra leiðsögu-mann hvernig þær hljóðuðu. Hann hló bara við og sagði að veðrið væri alveg

Everest.

Page 6: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

ÚTIVERA > 41

ófyrirsjáanlegt. Einn daginn vildum við vita hvort hann héldi að það myndi rigna næsta dag, svar hans var í dálitlum vé-fréttastíl „maybe – or maybe not“! Það virtist sem Nepalir litu svo á að veðrið bara kæmi, það þýddi ekkert að spá fyrir um hvernig það yrði. Hvergi sáum við hitamæla og vissum því ekki gjörla hvert hitastigið var. Ein í hópnum var með hitamæli á bakpokanum og sam-kvæmt honum var hitastigið á bilinu 5-13°C yfir hádaginn, að sjálfsögðu lækk-andi eftir því sem ofar dró. Alla vega vorum við ekki á stuttermabolum nema síðustu dagana þegar við komum aftur niður fyrir 3.500 m hæð. En reyndar sagði Rishi að veðrið væri kaldara en venjulega á þessum tíma árs.

Á leiðinni til Dengboche fórum við yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt sjónarhorn er af henni á hið tignarlega fjall Ama Dablam.

Eftir göngu í skógivöxnum dölum, yfir hengibrýr og í krákustígum upp alllanga brekku komum við upp í fjallaskarð þar sem þorpið Dengboche stendur í tæp-lega 3.900 m hæð. Þar er búdda-klaustur og tæpast tilviljun að það er byggt einmitt á þessum stað, uppi í fjallaskarði þaðan sem er svo víðsýnt. Everest, Lhotse og Nuptse blasa við frá Dengboche. Um kvöldið var algjörlega heiðskírt og tunglsljós, það var ævintýri líkast að standa úti og horfa á umhverfið. Helsta vandamálið þá stundina var hvert ætti að horfa til að njóta fegurðarinnar.

Everest nálgastNæsta dag gengum við frá Dengboche til Dingboche sem er í 4.400 m hæð. Þar skyldi gist í tvær nætur og dagurinn not-aður til hæðaraðlögunar. Rishi vildi ekki að við færum neinar öflugar göngur á hæðaraðlögunardögunum, taldi betra

Everest.

Um kvöldið var

algjörlega heiðskírt

og tunglsljós, það

var ævintýri líkast

að standa úti og

horfa á umhverfið.

Helsta vandamálið

þá stundina var

hvert ætti að horfa

til að njóta fegurðar-

innar.

Horft frá Dengboche í átt til Namche Bazaar..

Page 7: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

42 < ÚTIVERA

að við hefðum tiltölulega hægt um okkur. Við létum okkur því nægja að rölta upp á hæð hjá Dingboche til að fá enn betra sjónarhorn á Ama Dablam sem gnæfir yfir dalnum. Einnig skruppum við í Franska bakaríið á staðnum til að fá okkur alvöru kaffi og jafnvel köku með. Almennt var nefnilega boðið upp á nescafé á tehúsunum, ekki uppáhellt.

Frá Dingboche lá leiðin til Lobuche og þá sáum við blátoppinn á Cho Oyu (8.201 m) framundan auk fleiri fallegra fjalla. Ama Dablam, Thamserku og Kang-tega blöstu við þegar litið var um öxl og okkur á vinstri hönd voru Tabuche (6.495 m) og Cholatse (6.335 m). Ekki slæmur félagsskapur.

Þorpið Lobuche er í 4.900 m hæð. Nokkru áður en þangað kom breyttist landslagið, nú voru allir skógar horfnir og við tók grjót og jökulurð. Í fjallaskarði, stuttu áður en komið er til Lobuche, eru minnisvarðar um fólk sem farist hefur í fjöllunum. Þar á meðal er minnisvarði um Scott Fischer sem var leiðangursstjóri í leiðangri á Everest í maí 1996 og lét lífið í óveðri á fjallinu ásamt ellefu öðrum fjallagörpum. Frá þeim harmleik er sagt í bókinni Into thin air eftir Jon Krakauer.

Everest Base CampEftir gistingu í Lobuche var loks komið

Dengboche, fjallið Tabuche í baksýn.

Ama Dablam.

Page 8: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

ÚTIVERA > 43

að lokatakmarki göngunnar, Everest Base Camp. Langur dagur var fram-undan og því lagt tímanlega af stað. Fyrst var gengið upp til Gorak Shep sem er mjög lítið þorp í 5.180 m hæð, eigin-lega bara örfá hús. Þar borðuðum við hádegisverð og héldum síðan áfram upp til Everest Base Camp. Þetta svæði er alveg gróðurlaust, enda í meira en

5.000 m hæð yfir sjávarmáli, og þarna er bara grjót, fjöll og jöklar.

Eftir því sem við nálguðumst grunn-búðirnar sáum við betur þessa staði sem mörg okkar höfðu lesið um, til dæmis Khumbu-skriðjökulinn sem er einn mesti farartálmi manna sem klífa Everest. Ísblokkirnar í skriðjöklinum eru gífurlega stórar og auk þess á stöðugri

hreyfingu. Undirlag grunnbúðanna er jökull með lagi af grjóti ofan á og virðist hvorki hlýtt né mjúkt. Samt var yfir búð-unum ævintýrabjarmi, þarna gisti fólk sem var á leið á hæsta tind í heimi, átti fyrir höndum sér mikið erfiði og jafnvel lífshættu, en dreymdi um að standa á toppi þessa mikla fjalls.

Við stoppuðum á hæð skammt frá Dengboche, fjallið Tabuche í baksýn.

Hópurinn við Everest Base Camp. Standandi frá vinstri: Blædís Dögg Guðjónsdóttir, Þórhalla Eggertsdóttir, Jónas Pétur Jónsson, Anna Maren Sveinbjörnsdóttir, Árni Einarsson og Ólafur Gísli Jónsson. Sitjandi frá vinstri: Kristíana Baldursdóttir, Svala Guðjónsdóttir og Sigurþór Sigurðarson.

Everest Base Camp. Til hægri sést í Khumbu-skriðjökulinn. Nuptse lengst til hægri, Everest aftar. Khumbu-skriðjökullinn vinstra megin við miðja mynd.

Page 9: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

44 < ÚTIVERA

grunnbúðunum þar sem er stór steinn með áletruninni Everest Base Camp og ýmsum öðrum áletrunum sem gestir hafa krotað á hann. Bænaflögg voru í hrúgum á steininum. Ekki er farið inn í grunnbúðirnar sjálfar, enda ástæðulaust að trufla tjaldbúana sem hafa öðrum hnöppum að hneppa en sinna forvitnum ferðalöngum. Einn í hópnum, Sigurþór, átti afmæli þennan dag og því var slegið upp afmælisveislu á hæðinni. Eplapæ hafði verið útvegað í Gorak Shep ásamt sultutaui til að setja ofan á það, auk þess sem Sigurþór bauð uppá viskýtár. Allir í hópnum fengu sem svaraði fingurbjörg af viskýi, meira var ekki leyfilegt því það er ekki góð latína að setja ofan í sig áfengi í svona mikilli hæð nema í litlum mæli. Að sjálfsögðu var svo afmælis-söngurinn sunginn. Eftir afmælisveislu, söng og myndatökur var gengið aftur niður til Gorak Shep og gist þar.

Þegar við komum til Gorak Shep um morguninn fréttum við að á hótelinu okkar lægi maður sem beið eftir að vera sóttur með þyrlu. Hann var illa veikur af hæðarveiki og komst ekki af eigin rammleik til baka. Hæðarveikin er ill-ræmdur sjúkdómur sem getur verið banvænn ef ekki er gætt að sér. Hægt

er að taka lyfið diamox sem dregur um-talsvert úr hættunni á að veikjast. Auk þess þarf að gæta þess að gefa sér tíma til að aðlagast hæðinni, reyna ekki á sig að óþörfu og drekka nóg vatn. Flestir finna einhver einkenni, svo sem höfuð-verk, lystarleysi eða erfiðleika með svefn, og þá er mikilvægt að hlusta á líkamann og bregðast við áður en hæðarveikin tekur völdin. Ef hún nær því er eina lækningin að fara strax niður í minni hæð. Björgun með þyrlu kostar um það bil eina milljón króna og fyrir ferðalanga í svona ferð er eins gott að ganga úr skugga um að tryggingar borgi slíkan kostnað áður en haldið er af stað, svo peningamál spili ekki inn í ákvörðun um hvort kalla skuli á þyrlu.

Í fögrum fjallasalÁður en lagt var af stað til baka næsta dag gengum við upp á Kala Patthar sem er 5.640 m hár tindur rétt ofan við Gorak Shep til að njóta útsýnisins í þessum ótrúlega fjallasal. Um nóttina hafði snjóað og það gekk á með éljum en var þó bjart á milli. Af Kala Patthar blasti toppur Everest við og þaðan sáum við Suðurskarð þar sem Everest-farar gista á leið sinni upp á fjallið. Nuptse með

sínum glæsilegu klettabeltum var beint fyrir framan okkur og bak við okkur fjallið Pumo Ri. Það fjall snerti vissulega hjörtu Íslendinganna því þar fórust þrír Íslendingar fyrir tæpum aldarfjórðungi. Í október árið 1988 hugðust Þorsteinn Guðjónsson og Kristinn Rúnarsson klífa fjallið en þeir áttu ekki afturkvæmt úr þeirri för. Þeir voru báðir miklir fjalla-menn og höfðu klifið ótal fjöll, bæði á Ís-landi og í Ölpunum, Suður-Ameríku og í Himalayafjöllunum. Enginn veit hvað olli því að þeir týndu lífi á Pumo Ri. Réttum tveimur árum síðar stóð Ari Gunnarsson á tindi Pumo Ri. Hann kleif fjallið í minn-ingu landa sinna en kaldhæðni örlag-anna olli því að örlög hans urðu hin sömu og þeirra. Hann hrapaði í sprungu á leiðinni til baka og var látinn þegar að var komið.

Við dvöldum góða stund uppi á Kala Patthar, nutum útsýnis og tókum ótal myndir. Að lokum urðum við þó að halda af stað niður því framundan var ganga niður til Pheriche þennan dag. Neðar-lega í fjallshlíðinni er stórgrýtt svæði sem komast þarf yfir. Þegar undirrituð var komin í gegnum þann kafla leiðar-innar tók hún eftir manni töluvert á eftir sem átti greinilega í vandræðum með

Gorak Shep, Kala Patthar og yfir gnæfir Pumo Ri.

Page 10: 36 < ÚTIVERA Á vit ævintýranna - · PDF filelitlu pjakkarnir því þeir voru bara 15-19 ára gamlir. ... yfir brú á ánni Dudh Kosh. Brúin er fræg fyrir hversu glæsilegt

ÚTIVERA > 45

að komast yfir klungrið, hann var mjög reikull í spori og augljóslega veikur. Ekki var um annað að ræða en snúa við og reyna að hjálpa blessuðum manninum. En hann var ekki á þeim buxunum að þiggja hjálp, kannski hefur það sært karlmennskustolt hans þegar eldspræk kona kom og bauðst til að hjálpa honum. Að minnsta kosti afþakkaði hann hjálpina með orðunum „Please, don‘t help me“!

Eftir næturdvöl í Pheriche skoðuðum við Himalayan Rescue Association, Pheriche Aid-post, sem staðsett er þar í þorpinu. Auk þess að vera bráðamót-taka og annast hæðarveikisjúklinga er þetta heilsugæsla fyrir íbúana. Bráða-móttakan er nánast alveg rekin með sjálfboðavinnu og frjálsum framlögum, eina fasta framlagið er sem svarar eitt þúsund bandaríkjadollurum á ári frá ne-pölskum stjórnvöldum. Við hittum sænskan lækni sem starfaði þarna í þrjá mánuði í sjálfboðavinnu og sagði það vera mjög góða afsökun fyrir að dvelja þarna. Fyrir utan bráðamóttökuna er minnismerki um þá sem hafa farist á Everest og á það eru skráð nöfn þeirra allra, auk þess sem á minnismerkinu eru auðar plötur fyrir nöfn þeirra sem kunna

að farast á Everest í framtíðinni. Því miður munu nú þegar hafa bæst við nöfn eftir að við vorum þarna á ferð, því að minnsta kosti fjórir fórust á fjallinu síð-ari hluta maí.

Á heimleiðFrá Pheriche héldum við til Dengboche og gistum þar en næsta dag var förinni heitið til Namche Bazaar í gegnum þorpin Khumjung og Khunde. Í Khumj-ung er varðveitt það sem Nepalir telja vera höfuðleður af snjómanninum ógur-lega (e. Yeti scalp) en Nepalir telja að í fjöllunum búi margir snjómenn.

Í Khunde er spítali sem reistur var af Edmund Hillary og sjóði sem stofnaður var í þessu skyni og kenndur við Hillary. Edmund Hillary var mjög annt um fólkið á þessu svæði og gerði ýmislegt til að hjálpa því og létta því lífsbaráttuna. Spítalinn var staðsettur í þessu þorpi af því það er stærsta þéttbýlið á þessu svæði ef Namche Bazaar er undanskilið. Við fengum að kíkja inn í spítalann og spjalla við lækni þar.

Frá Khunde gengum við síðan niður til Namche Bazaar þar sem við gistum á sama hóteli og á leiðinni uppeftir. Morguninn eftir fórum við á markað fyrir

innfædda sem haldinn er í Namche Bazaar á föstudags- og laugardags-morgnum. Þar var ýmislegt til sölu; krydd, kjöt og önnur matvæli, skór og fatnaður, alls konar búsáhöld o.fl. Ekkert var þó þarna sem freistaði Íslendinga. Eftir markaðinn var haldið niður til næsta gististaðar, sem var Phakding. Þegar þarna var komið sögu vorum við aftur komin niður fyrir 3.000 m hæð og fundum það greinilega á loftinu, það hreinlega virkaði þykkt. Næsti dagur var síðasti göngudagur þessarar ferðar, en þá var tekinn lokaspretturinn til Lukla. Þar kvöddum við okkar ágætu burðar-menn með söknuði, því þeir höfðu svo sannarlega unnið hug og hjörtu okkar með hógværð, elskulegri framkomu og endalausri hjálpsemi. Eins og venja er gáfum við þeim þjórfé og þeir voru svo ánægðir að þeir mættu eldsnemma næsta dag á hótelið til að skrýða okkur með silkiborðum í þakklætisskyni og bera farangur okkar út á flugvöll.

Til Lukla er einungis flogið á morgn-ana því eftir hádegi geta verið svipti-vindar milli fjallanna og lélegt skyggni. Við gistum því eina nótt í Lukla og flugum svo til Kathmandu eldsnemma næsta dag. Þar hittum við félaga okkar sem komu úr sinni ferð til Annapurna Base Camp, jafn sælir með hana eins og við vorum með okkar ferð. Um kvöldið var kveðjukvöldverður á nepölskum veitingastað sem systurnar Lata og Geeta frá nepölsku ferðaskrifstofunni og leiðsögumennirnir nutu með okkur, en hann var í boði ferðaskrifstofunnar.

Ég kvaddi Nepal með söknuði, þetta er ótrúlega fjölbreytt land – í raun land öfga á mörgum sviðum. Lægsti punktur landsins er um 70 m yfir sjávarmáli, sá hæsti 8.848 m. Uppi í fjöllunum er ótrú-leg fegurð, en það þyrfti afskaplega góðan vilja og mikla jákvæðni til að segja að höfuðborgin Kathmandu væri falleg. Nær helmingur Nepala er ólæs en svo eru líka margir mjög vel mennt-aðir, til dæmis Rishi sem er með há-skólagráðu í stjórnun, er í mastersnámi við indverskan háskóla og ætlar að taka tvær mastersgráður í viðbót. Um þriðj-ungur Nepala lifir undir fátæktarmörkum, en svo eru aðrir mjög ríkir. Svona mætti áfram telja. Öll þessi fjölbreytni og það elskulega fólk sem í landinu býr hafði mjög mikil áhrif á mig og mér finnst ég töluvert reynslunni ríkari af að hafa farið til Nepal. Ég er strax farin að hlakka til páskanna 2013 en þá fer ég aftur sem fararstjóri í ferð ÍT-ferða til Everest Base Camp í Nepal.

Namaste!

Í Pheriche. Thamserku í baksýn.